Færsluflokkur: Bloggar

Gloría missir hvolpafeldinn

IMG_2387_JPG

Núna er Gloría orðin eins árs (20.apríl) og síðustu vikur hefur hún verið að skipta um ham Wink Loðni, úfni hvolpafeldurinn er að hverfa og nýr feldur sem er sléttari og með grófari hárum, er kominn í staðinn.

Annars gengur nú allt vel hjá Gloríu, henni finnst voða gaman að fara með okkur í ferðalag í húsbílnum og hún elskar að fá að hlaupa um í náttúrunni. Það er lítið mál að ferðast með hana og þó að hún sé nú fyrirferðamikil þá fer vel um hana inní húsbílnum á nóttunni. Á tjaldstæðum víkur hún aldrei frá okkur.

Hún bíður nú spennt eftir að komast í fleiri ferðalög í sumar um landið þar sem hún getur hlaupið um frjáls í náttúrunni.


Gloría útskrifuð af hundanámskeiði

Núna er Gloría að verða 10 mánaða og nýbúin að klára hundanámskeið. Hún stóð sig mjög vel þar og gerði allt sem henni var sagt. Þar var farið í ýmsar æfingar, s.s. standa, sitja, liggja, ganga í lausum taum, innkall og augnsamband.

Annars gengur bara lífið vel hjá Gloríu, hún er ótrúlega ljúf og góð en helst til frekar hlédræg og vör um sig. Það tekur hana dálítinn tíma að venjast ókunnugu fólki og hún bakkar ef ókunnugir ætla að klappa henni. Hún þarf smá tíma til að kynnast fólki og hundum.

Síðustu 2-3 vikur hefur hún upplifað fyrsta lóðaríið og hún hefur verið frekar æst þegar við mætum hundum í göngutúrum. En það fer nú að líða hjá og þá minnka vonandi hundahárin en lóðaríinu fylgir aðeins meira hárlos en vanalega Wink

Nýjar myndir eru komnar á myndasíðuna


Gloría loksins komin heim

Þá er Gloría loksins komin aftur heim til okkar eftir pössun í Danmörku og einangrun á Íslandi. Hún kom úr einangruninni viku fyrir jól og það má því segja að það hafi verið besta jólagjöfin okkar að fá hana aftur.

Gloriajol2

 

 

Hún hefur stækkað mjög mikið og er núna orðin 40 kg og um 70cm há upp á hrygginn. Hún var mjög fljót að venjast heimilinu og fylgir okkur hvert fótmál. Alltaf jafn ljúf og góð, róleg og yfirveguð.

Henni finnst mjög gaman að vera úti þar sem hún getur hlaupið frjáls og leikið sér. Hún er mjög hlýðin og það er auðvelt að kenna henni. Þegar við förum með hana út, t.d. útí bíl þá eltir hún okkur og stekkur svo uppí bílinn. Það þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því að hún hlaupi eitthvað í burtu. Henni finnst mjög gaman í bíl og vill helst fara með okkur þegar við förum eitthvað.

 


Gloría í einangrun

Núna er Gloría loksins komin til Íslands og í einangrun á Suðurnesjum. Það gengur mjög vel með hana þar og núna bíðum við bara eftir að fá hana heim til okkar. Hún mun væntanlega koma 15. desember. eftir mánaðardvöl í einangrun.

 Það verður því besta jólagjöfin okkar í ár að fá Gloríu á heimilið aftur. Hún hefur stækkað ótrúlega mikið síðan við skildum við hana í Danmörku í haust.


Gloría á leið til Íslands

Gloria7man 

Nú er Gloría orðin 7 mánaða og þá má hún koma til Íslands. Eftir að hafa farið í ótal sprautur, blóðprufur og annað hjá dýralækninum í Danmörku þá hefur hún fengið brottfararleyfi og er tilbúin að fara í einangrun á Íslandi. Alveg ótrúlegar þessar reglur á Íslandi um innflutning heimilisdýra... en það er nú efni í langa grein að fjalla nánar um það.... GetLost

 Gloría hefur stækkað alveg heil ósköp á þessum þremur mánuðum og litli hvolpurinn sem ég skildi eftir í Danmörku fyrir þremur mánuðum er núna orðinn að heljarinnar skógarbirni Tounge

Hún er orðin 37 kg þó hún sé bara hvolpur ennþá... og á sennilega eftir að stækka eitthvað aðeins ennþá.

Doperman-hundurinn  Adolf og Gloría eru orðnir góðir vinir og leika sér mikið saman. Það verður mikill söknuður hjá Adolf þegar Gloría fer. Litli fiðrildahundurinn Lucý er líka dugleg að leika við þau og hún hefur enga minnimáttarkennd þó það muni talsverðu á stærðinni. Hún leikur sér bara við skottið á Gloríu, sem er álíka stórt og Lucý sjálf LoL

Á morgun förum við til Kaupmannahafnar þar sem við tökum flugið til Íslands. Þar sem Gloría er orðin svo stór og þung þá þarf hún að fara með frakt, en fer samt með sömu vél og við.

Þegar til Keflavíkur er komið þá tekur við einn mánuður í einangrunarstöðinni á Suðurnesjum áður en við fáum Gloríu inn á heimilið okkar um miðjan desember. Það verður því besta jólagjöfin í ár að fá Gloríu loksins heim til Íslands. Wizard

Bestu kveðjur frá Danmörku


Gloria komin til Danmerkur

Gloria3b 

Nú er Gloría orðin rúmlega 3 mánaða gömul og stækkar óðum, er núna orðin 18 kg. Það hefur gengið voða vel með hana þennan tíma sem við vorum með hana í Kaprun í Austurríki. Við ferðuðumst mikið með hana, fórum m.a. til Sviss og Frakklands. Hún er líka búin að fara oft í kláf upp á hin ýmsu fjöll í Ölpunum og meira að segja líka í stólalyftu. Hún vekur alls staðar mikla athygli og oft komumst við ekki hratt yfir því að það eru svo margir sem vilja klappa henni og taka mynd.

 

 

Gloria3a

Gloría er frekar feimin og hlédræg og við höfum verið að þjálfa hana í að vera innan um annað fólk og hunda. Fyrst þorði hún ekki út úr garðinum heima í Kaprun og settist oft niður í miðri göngu og vildi ekki fara lengra, sérstaklega þegar hitastigið var yfir 30 gráðum, þá sótti hún alltaf í skugga.

Núna erum við komin til Danmerkur þar sem Gloría verður í pössun þangað til hún er orðin 7 mánaða þegar hún getur farið til Íslands. Hún er að kynnast heimilishundinum sem er stór dopperman. Á heimilinu er líka annar dopperman og lítill pavillion hundur sem eru gestir á heimilinu.

Það gekk ekki vel í fyrstu þegar Gloría kom inn á heimilið, dopperman hundurinn lét hana ekki í friði og Gloría þurfti að vera inn í búrinu sínu til að fá frið. En núna, eftir tvo daga, þá gengur samveran miklu betur og þau eru farin að leika sér saman. Gloría er samt frekar hrædd en hún er að venjast nýjum aðstæðum og á örugglega eftir að semja vel við dopperman-hundinn.


Hvolpurinn, Gloria, komin til okkar

Í dag keyrðum við til Þýskalands að sækja litla sæta berner-sennenhvolpinn okkar. Hann er orðinn 8 vikna og hefur stækkað heilmikið síðan við fórum að skoða hann fyrir mánuði síðan.

 Það voru allir orðnir voða spenntir að fá nýja hvolpinn og mikil gleði ríkir á heimilinu síðan hann kom í hús. Í ættbókinni heitir tíkin Gloria og við ákváðum að halda því nafni. Hún hefur verið að skoða sig um í dag og finnst skemmtilegast að vera útí garði. Annars er hún frekar feimin og mjög róleg. Hún eltir okkur hvert spor og leggst alltaf við fæturna á okkur eða í fangið.

Hún er elskuð af öllum á heimilinu og yngstu krakkarnir hafa skipst á að liggja hjá henni og knúsa hana í allan dag. Það er ekki annað hægt en að falla gjörsamlega fyrir henni, hún er svo yndisleg, róleg og náttúrulega fallegasti hundur í heimi, eins og krakkarnir segja.

 


Berner-Sennen hvolpurinn okkar

Þetta blogg er um nýja Berner-Sennen hvolpinn okkar sem við fáum afhentan í næsta mánuði. Við fáum hann frá Þýskalandi og verðum með hann hérna í Austurríki þangað til við förum til Íslands í ágúst. Þá fer hann í pössun og síðan í einangrun í einn mánuð áður en við fáum hann aftur, um miðjan desember.

Ég ætla að reyna að setja hér inn fréttir af hvolpinum, sem er tík og hefur ekki enn fengið nafn, en það er allt í vinnslu Wink  ...miklar umræður í gangi á heimilinu að finna gott nafn á tíkina.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband